Um Ylströndina

Sumarið 2000 var tekin í notkun glæsileg Ylströnd í Nauthólsvík. Reistir voru voldugir sjóvarnargarðar og inn fyrir þá dælt gullnum skeljasandi. Innan garðanna er fallegt lón þar sem kaldur sjór og heitt vatn renna saman í eitt. Þessar aðstæður minna meira á strendurnar við sægrænt Miðjarðarhafið en vík í nyrstu höfuðborg heims við Norður-Atlantshafið. Markmiðið með þessum framkvæmdum var að gera Nauthólsvík að fjölbreyttu útivistarsvæði þar sem lögð er áhersla á útiveru, sólböð, sjóböð og siglingar líkt og tíðkaðist hér fyrr á árum.

Sumarið 2001 var tekin í notkun þjónustumiðstöð á Ylströndinni. Þar er búnings- og sturtuaðstaða fyrir baðgesti og þar er jafnframt hægt að kaupa léttar veitingar. Einnig er hægt að fá lánuð ýmis leiktæki bæði fyrir börn og fullorðna auk þess sem grill er á staðnum. Fyrir framan þjónustumiðstöðina er löng setlaug sem er um 38°C heit. Í flæðarmáli strandarinnar er uppstreymispottur til hitunar á lóninu sem jafnframt er íverustaður. Sumarið 2012 var opnað eimbað til að auka þjónustuna enn frekar. Þessi framkvæmd hefur mælst gríðarlega vel fyrir og ekki hægt að segja annað en að Ylströndin hafi slegið í gegn eftir að hún var opnuð. Ófáir hafa lagt leið sína þangað og flatmagað í sólinni á sólríkum sumardögum.

Góð aðsókn hefur verið að Ylströndinni og koma að meðaltali hátt í 530.000 gestir á hverju ári á ströndina. Það er því óhætt að segja að ströndin hafi fest sig í sessi sem paradís í borgarlandinu sem laðar að jafnt innlenda sem erlenda gesti.

Til baka